Nú á vordögum hafa um 12 kátar mömmur með ungana sína tekið þátt í tónlistarnámskeiði fyrir börn yngri en eins árs og foreldra þeirra í Fella- og Hólakirkju.

Sjáið myndir hér

Námskeið sem þessi hafa áður verið haldin hérlendis, en aldrei innan kirkjunnar. Mikið er um námskeið sem þessi í kirkjum í Danmörku en þar hafa leiðbeinendur á námskeiðinu, þær Diljá Sigursveinsdóttir, tónlistarkennari og Guðný Einarsdóttir, organisti kynnst þeim. Námskeiðið er haldið inni í kirkjuskipinu sjálfu og er notast við sálma og aðra tónlist kirkjunnar.

Á námskeiðinu syngjum við fyrir börnin, gerum hreyfingar, vöggum þeim og dönsum og hlustum á tónlist. Leitast er við að veita börnum og foreldrum gleði af tónlist og söng og tengja þá jákvæðu upplifun við kirkjuna, sálmana og tónlist kirkjunnar. Tónlistariðkun með ungabörnum örvar tengsl barna og foreldra og einnig hafa rannsóknir sýnt að tónlist hafi góð áhrif á tilfinninga- og hreyfiþroska barna. Það krefst sannarlega engrar sérkunnáttu að syngja fyrir börnin sín! Á þessum aldri eru raddir foreldrana það fallegasta í öllum heiminum!

En af hverju tónlistarnámskeið í kirkjunni fyrir svona lítil börn? Jú, á námskeiðinu er leitast við að nota sálma og tónlist kirkjunnar og tengja bæði börn og fullorðna við kirkjuna á jákvæðan hátt. Mörg af lögum og textum kirkjunnar eru hreinasti fjársjóður og henta oft mjög vel til að raula eða syngja fyrir lítil börn. Þó að börnin skilji ekki texta laganna skynja þau stemninguna og getur lag og texti sest að í undirmeðvitundinni og veitt þeim gleði seinna á lífsleiðinni.

Hér á síðunni er að finna myndir frá námskeiðinu núna á vorönn. Látum þær tala sínu máli!