Nú er komið að lokatónleikum tónlistardaga Fella- og Hólakirkju í júlí. Þeir þrennir tónleikar sem haldnir hafa verið voru hver öðrum glæsilegri og flytjendur allir framúrskarandi listamenn á sínu sviði. Hafa áheyrendur á tónleikunum lýst sérstakri ánægju sinni yfir þessu góða framtaki Guðnýjar Einarsdóttur, kantórs kirkjunnar. Nú á morgun, fimmtudaginn 23. júlí eru lokatónleikarnir og er þar um að ræða blokkflaututónlist. Hér er stutt samantekt um tónleikana og við hvetjum alla til að koma og njóta.

Trio NordicBlock

 Trio NordicBlock skipuleggur um þessar mundir tónleikaferð um Norðurlöndin til að kynna norræna blokkflaututónlist. Tónleikarnir í Fella- og Hólakirkju eru meðal fyrstu tónleika þeirra á þessu ferðalagi.

Á tónleikunum þann 23. júlí kl. 20 mun blokkflaututríó frá Finnlandi og Danmörku koma fram. Tríóið, sem kallar sig Trio NordicBlock, leggur metnað sinn í flutning fjölbreyttrar tónlistar frá öllum tímum og hafa ný verk verið sérstaklega samin fyrir þau. Á tónleikum þeirra fá blokkflautur af öllum stærðum og gerðum hlutverk.

Þremenningarnir Eero Saunamäki, Anna Saunamäki og Pernille Petersen hafa spilað saman frá árinu 2006 en tríóið var stofnað í Bolzano á Ítalíu. Tríóið hefur haldið tónleika bæði í Danmörku og Finnlandi og getið sér gott orð. Á efnisskrá þeirra eru verk frá ýmsum tímum og hafa sum verkanna sérstaklega verið samin fyrir Trio NordicBlock.