Jóladiskur listasmiðjunnar Litrófs er komin út.
Diskurinn hefur að geyma íslensk frumsamin jólalög og míkil vinna hefur farið í að gera hann sem veglegastan. Efnið höfðar sérstaklega til barna og unglinga, en hefur boðskap að flytja sem á erindi við okkur öll.  Diskurinn er flytjendum og kirkjunni okkar til sóma og góð hugmynd að jólagjöf. 

Litróf í Fella- og Hólakirkju

Haustið 2007 tók Listasmiðjan Litróf til starfa en hún er hluti af þróunarstarfi Fella- og Hólakirkju með innflytjendum. Nafnið Litróf vísar til fjölbreytileika mannlífsins. Litróf er listasmiðja fyrir börn frá átta ára aldri, íslensk og af erlendu bergi brotin. Helstu viðfangsefni Litrófs eru tónlist, dans, listræn hreyfing og önnur listsköpun. Markmiðið er að skapa jákvæðan vettvang fyrir börn þar sem þau geta tekið þátt í þroskandi verkefnum í góðu umhverfi undir stjórn fagfólks kirkjunnar. Æfingar eru vikulega í kirkjunni og auk þess er farið út fyrir borgina í æfingabúðir eina eða tvær helgar á vetri. Þess er gætt að sýna börnunum hvatningu og umhyggju. Börnin í Litrófi koma reglulega fram og kynna þannig afrakstur starfsins. Listasmiðjan Litróf laðar fram og byggir upp félagsauð og hæfileika sem börn búa yfir. Það skiptir miklu máli í fjölmenningarlegu samfélagi að mæta hverjum einstaklingi með virðingu. Kirkjan vill með þessu starfi leggja sitt af mörkum til þessa. 

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, djákni Fella- og Hólakirkju, ber ábyrgð á starfi Listasmiðjunnar Litrófs. Auk hennar taka Guðný Einarsdóttir, organisti kirkjunnar, og Heiðrún Guðvarðardóttir þátt í starfinu. Foreldrar leggja listasmiðjunni lið og styðja við starfsemina. Þá hafa fjölmargar stofnanir og félagasamtök stutt listasmiðjuna með fjárframlögum.
Geisladiskurinn er afrakstur af starfi listasmiðjunnar sem nú er að hefja sitt þriðja starfsár og er hann að mestu tekinn upp í Fella- og Hólakirkju. Öll lögin, nema eitt, eru íslensk, frumsamin jólalög, og er tónlistarflutningur og upptaka í höndum íslenskra og erlendra tónlistarmanna sem starfa hér á landi. Mikil þörf er fyrir íslensk lög fyrir barnakóra og sönghópa, bæði á vegum skóla og kirkju, sem og í ýmiss konar félagsstarfi  fyrir börn og unglinga.  

Gestasöngvari á diskinum er Svavar Knútur
Stjórnandi: Ragnhildur Ásgeirsdóttir
Listrænn stjórnandi: Hilmar Örn Agnarsson
Upptökur fóru fram í Fella- og Hólakirkju og hljóðveri Mix ehf.
Upptökustjóri: Jón Skuggi
Myndir á hulstri og bæklingi: Steint gler í Fella- og Hólakirkju eftir Leif Breiðfjörð
Útgefandi: Fella- og Hólakirkja, FoH 001

Megi geisladiskur þessi með nýjum íslenskum jólalögum, sem höfða sérstaklega til barna og unglinga, verða gott framlag til íslenskrar tónlistarhefðar.