Á sunnudaginn er 1. sunnudagur í föstu. Þá er einnig Konudagurinn. Guðsþjónusta með altarisgöngu verður kl.11. Prestur sr. Guðmundur Karl Ágústsson og Ragnhildur Ásgeirsdóttir, djákni prédika og þjóna fyrir altari.Kór kirkjunnar syngur og leiðir almennan safnaðarsöng undir stjórn Guðnýjar Einarsdóttur kantors. Konur úr kirkjustarfinu lesa ritningartexta og nokkrir karlmenn baka vöfflur í tilefni dagsins. Kirkjuvörður og meðhjálpari er Jóhanna F:Björnsdóttir. Sunnudagaskóli á sama tíma ,, Föndrað fyrir kirkjugesti”. Umsjón Þóra Sigurðardóttir og Þórey Dögg Jónsdóttir. Verið innilega velkomin í Fella- og Hólakirkju.
Guðspjall dagsins er úr Matteusarguðspjalli:

,,Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“
Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“
Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er:
Hann mun fela þig englum sínum
og þeir munu bera þig á höndum sér
að þú steytir ekki fót þinn við steini.“
Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“
Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“
En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“

Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum”