Verið velkomin til guðsþjónustu kl.11 sem jafnframt er lokahátíð barnastarfsins. Prestur sr. Svavar Stefánsson. Bjarki Freyr Andrésson, 10 ára, leikur forspil á orgel. Organisti er Guðný Einarsdóttir. Listasmiðjan Litróf syngur og leiðir almennan safnaðarsöng undir stjórn Ragnhildar Ásgeirsdóttur. Dansarar úr Listdansskóla Íslands sýna dansatriði úr fallegu verki eftir Alvin Ailey. Meðhjálpari og kirkjuvörður er Kristín Ingólfsdóttir. Boðið verður upp á hressingu í safnaðarheimili kirkjunnar eftir guðsþjónustuna.
Guðspjall dagsins er úr Jóhannesarguðspjalli 16.kafla 16-23vers :

Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“

Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“

Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.