Kór Fella- og Hólakirkju gengst fyrir minningartónleikum um biskupshjónin Magneu Þorkelsdóttur og Sigurbjörn Einarsson  þriðjudaginn 1. mars í tilefni af því að  á þessu ári eru liðin 100 ár frá fæðingu þeirra. Magnea Þorkelsdóttir hefði orðið 100 ára þennan dag en hún fæddist 1. mars 1911. Sigurbjörn Einarsson fæddist 30. júní 1911.

Tónleikarnir verða haldnir í Fella og Hólakirkju og hefjast kl. 20.30. Stjórnandi kórsins og skipuleggjandi tónleikanna er Guðný Einarsdóttir, sonardóttir Magneu og Sigurbjörns. Nokkrir fleiri afkomendur þeirra koma fram á tónleikunum og einnig Björg Þórhallsdóttir, sópransöngkona.

Á dagskrá tónleikanna eru sálmar eftir Sigurbjörn og fylgir uppbyggingin á fyrri hluta tónleikanna trúarjátningunni. Síðari hluti efnisskrárinnar er persónulegri og tileinkaður Magneu. Lesin verða ljóð sem Sigurbjörn orti til hennar og eitt barnabarn þeirra hjóna mun minnast ömmu sinnar.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!