Þriðjudaginn 20. desember kl. 20:30 mun Kór Fella- og Hólakirkju ásamt þeim Áshildi Haraldsdóttur flautuleikara og Katie Buckley hörpuleikara halda jólatónleika við kertaljós í Fella- og Hólakirkju. Fluttar verða sígildar jólaperlur frá ýmsum tímum og löndum, m.a. kaflar úr Hnotubrjótnum eftir Tchaikovsky, íslensk sígild jólalög og jólalag frá Katalóníu auk þess sem áheyrendum gefst tækifæri á að taka þátt í almennum söng. Einsöngvarar á tónleikunum verða þær Ásdís Arnalds sópran, Eyrún Ósk Ingólfsdóttir sópran og Elfa Dröfn Stefánsdóttir mezzósópran en þær eru félagar í kórnum. Stjórnandi og orgelleikari er Guðný Einarsdóttir. Aðgangseyrir er 1500 kr. og er súkkulaði og piparkökur í boði eftir tónleikana. Allir eru hjartanlega velkomnir á ljúfa og notalega tónleika rétt fyrir jólin!