Um 2600 fermingarbörn um allt land ganga í hús þessa vikuna og safna peningum til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku. Framlag fermingarbarna er risastórt en í fyrra söfnuðu þau um átta milljónum króna. Áður en börnin ganga í hús fá þau að kynnast þróunarsamvinnu Hjálparstarfs kirkjunnar í fermingarfræðslunni. Þau fræðast um aðstæður fólks sem býr við erfið lífsskilyrði og fá tækifæri til að ræða um sameiginlega ábyrgð jarðarbúa á því að allir fái lifað mannsæmandi lífi

Með verkefninu gefst tækifæri til að fræða fermingarbörnin um boðskap Krists um náungakærleik á áþreifanlegan hátt. Á unglingsárum þegar skilningur vex og ungt fólk er að móta sér lífsstíl er mikilvægt að fá að setja sig í samhengi við aðra í heiminum og skynja kraft sinn til þess að breyta rétt og hafa áhrif. Hjálparstarfið biður þig að taka vel á móti fermingarbörnunum þegar þau banka upp á hjá þér.

Fermingarbörn Fella-og Hólakirkju munu ganga í hús í hverfinu fimmtudaginn 1. nóvember frá kl. 17:30 – 18:30.