Í byrjun nóvember hóf göngu sína vefþáttaserían ,,Markús“ í umsjá sr. Jóns Ómars Gunnarssonar og sr. Péturs Ragnhildarsonar. Um er að ræða stutta þætti þar sem þeir félagarnir ræða saman og fjalla um Biblíuna. Fyrsta serían fjallar um Markúsarguðspjall og verður sex þættir í heildina sem eru allir sjálfstæðir en mynda þó eina samfellda heild. Þættirnir eru unnir í samstarfi við kristilegu útvarpsstöðina Lindina og verða þeir spilaðir þar á FM 102,9 og verður einnig hægt að nálgast þá á hljóðformi í appi Lindarinnar. Þáttunum hefur einnig verið deilt á Facebooksíðu Fella- og Hólakirkju.

Nú þegar hafa verið birtir þrír þættir um Markúsarguðspjall en í desember verður gert hlé á umfjöllun um guðspjallið þar sem til stendur að gefa út nokkra jólaþætti þar sem verður meðal annars fjallað um þemu í jólaguðspjallinu. Eftir áramót verður svo serían um Markúsarguðspjall kláruð og eftir það verður spennandi að sjá hvaða rit eða þemu úr Biblíunni verða til umfjöllunar.

Markmið vefþáttanna er að vekja áhuga fólks á Biblíunni og ritum hennar og gefa því tækifæri til að dýpka þekkingu sína á því merka helgiritasafni. Biblían og boðskapur hennar eru samofin sögu og menningu Íslands og eiga erindi til okkar allra á hverjum degi.

Hér er þættirnir sem hafa verið gefnir út:

Þáttur 1 – Almenn umfjöllun um ritið og inngang þess.

Þáttur 2 – Starf Jesú í Galíleu I

Þáttur 3 – Starf Jesú í Galíleu II